Eldfjalla Freyja fæddist 6. apríl 2019 og er minn fyrsti Shih Tzu. Hún er einstök í mínum augum, ekki bara vegna þess hver hún er, heldur líka vegna þess hvað leiðin að henni var löng og eftirvæntingin mikil. Ég beið eftir því að eignast hana í þrjú ár.
Ég kynntist þessari tegund sem lítið barn í gegnum vinafólk mömmu, sem rækta Shih Tzu hunda. Ég man enn þegar ég hitti Lilo, ömmu Freyju, og lék við hana. Það var í þeim leik sem ástin kviknaði. Síðan þá vissi ég að þegar tíminn væri réttur ætlaði ég mér að eignast hvolp frá þeirri ræktun. Upphaflega hafði ég ætlað að bíða þar til ég yrði 18 ára, en örlögin höfðu annað í huga. Freyja kom inn í líf mitt þegar ég var 16 ára og það breytti öllu.
Freyja er ekki bara mín fyrsta tík heldur líka sú sem kveikti áhuga minn á hundasýningum og þjálfun. Hún hefur kennt mér ótrúlega margt og leitt mig inn í heim hundaræktunar. Það sem gerir Freyju enn sérstakari í mínum augum er hvernig hún tengist fólki, hún elskar sérstaklega að heimsækja hjúkrunarheimili og heilsa upp á eldri borgara með hlýju og rólegri nærveru. Hún hefur líka alltaf haft sérstakt lag á börnum, kemur strax með ró og mýkt inn í aðstæður og nýtur þess að vera hluti af fjölskyldulífi.
Árið 2023 eignaðist hún sitt fyrsta got, Dægurlagagotið. Það var stór stund að fá að fylgja henni í gegnum meðgöngu og móðurhlutverkið. Með gotinu hófst formlega sagan af Stjörnuþoku ræktun en allt hófst það með Freyju minni.
Stjörnuþoku Ég veit þú kemur fæddist 2. júlí 2023. Hún á sérstakan stað í hjarta mínu. Þegar ég hélt á henni nýfæddri fann ég strax tengingu sem átti eftir að styrkjast með tímanum. Upphaflega átti hún að heita Ellý í höfuðið á Ellý Vilhjálms en fljótlega fékk hún nafnið Prada.
Sem hvolpur var hún róleg, pínu feimin og mjög náin mér. Hún var minnst í gotinu en lét það ekki stoppa sig, hún var ákveðin og stundum ansi kröftug við systkini sín en vildi samt helst kúra. Þegar kom að því að velja hvaða hvolp ég myndi halda eftir úr dægurlagagotinu, átti ég erfitt með að ákveða mig, ætti ég að velja út frá útliti, litasamsetningu eða persónuleika? En smátt og smátt varð það ljóst, Prada valdi mig. Hún kom alltaf fyrst til mín, vildi kúra hjá mér og fylgdi mér hvert sem ég fór.
Í dag er hún einstaklega leikglöð, blíð og náin mér. Hún elskar að heilsa upp á fólk og hún er skugginn minn í daglegu lífi. Prada hefur tekið þátt í sýningum með góðum árangri og býr yfir bæði fallegri líkamsbyggingu og skapgerð sem ég er stolt af. Hún er dóttir Eldfjalla Freyju og Íseldar Hjörts, hún er hluti af fyrsta goti Freyju, Dægurlagagotinu sem markaði upphaf Stjörnuþoku ræktunar.