Hundasýningar eða svokallaðar tegundaskoðunarsýningar (e. conformation shows), er vettvangur þar sem hundar eru metnir út frá því hversu vel þeir uppfylla staðla fyrir sína tegund. Þessar reglur sem eru skráðar af viðurkenndum ræktunarfélögum, lýsa í smáatriðum hvernig hundurinn á að líta út og hegða sér, þar með talið líkamsbyggingu, feldgæði, göngulag, svipbrigði og skapgerð.
Markmið sýninganna er ekki að velja fallegasta hundinn, heldur þann sem líklegastur er til að skila sínum eiginleikum áfram til næstu kynslóðar, með því að líkja sem best eftir tegundarstaðlinum. Dómarar bera saman hunda innan tegundar og aldursflokka og raða þeim eftir því hversu nálægt þeir koma „fullkomnri útgáfu“ af tegundinni samkvæmt staðlinum.
Þátttaka í hundasýningu krefst mikils undirbúnings, bæði hjá hundinum og sýnandanum. Hundurinn þarf að vera í góðu líkamlegu ástandi, með hreinlegan og vel snyrtan feld. Hann þarf einnig að vera þjálfaður í að sýna sig í réttri stellingu, standa kyrr og ganga í taum á ákveðinn hátt. Mikilvægt er að hundurinn bregðist rólega við hávaða, öðrum hundum og mannfjölda sem krefst reglulegrar æfingar og umhverfisþjálfunar.
Sýningarnar sjálfar fara fram í skrefum: fyrst innan tegundar, svo innan hópa (t.d. smáhundar, vinnuhundar o.fl.) og að lokum er keppt um besta hund sýningar (Best in Show). Hundasýningar eru haldnar á ýmsum stigum, allt frá smáum sýningum innan klúbba til stórra alþjóðlegra sýninga með þúsundum keppenda. (American Kennel Club, e.d.)
Hér má sjá myndband sem ég gerði fyrir ensku áfanga í menntaskóla. Myndbandið sýnir hvernig hundar eru metnir á hundasýningum samkvæmt staðli hverrar tegundar. Í myndbandinu er farið yfir hvernig dómarar meta líkamsbyggingu, feldgæði, göngulag og skapgerð hunda. Þetta er gagnlegt efni fyrir þá sem vilja kynna sér hvernig hundasýningar fara fram og hvað þarf að hafa í huga við þátttöku: