Shih Tzu hundar eru þekktir fyrir fallegan, sívaxandi feld sem krefst reglulegrar umhirðu. Feldurinn er þéttur, tvöfaldur og getur orðið mjög langur ef hann er ekki klipptur og því er mikilvægt að bursta hann daglega til að koma í veg fyrir flækjur og hnútamyndun. Sérstaklega þarf að huga að svæðum á fótum, bringu og í kringum eyrun þar sem flækjur myndast auðveldlega (Regelmann, 1996). Margir eigendur kjósa að halda feldinum í svokölluðum „puppy clip“ styttri klippingu sem einfaldar daglega umhirðu (Brearley & Easton, 1980).
Augu Shih Tzu hundsins þarfnast einnig sérstakrar umhirðu, þar sem þau eru stór, opin og viðkvæm fyrir ryki og óhreinindum. Ráðlagt er að þurrka augu daglega með blautum klút og fylgjast með merkjum um ertingu eða sýkingu (Dadds, 1995). Þeir þurfa einnig reglulega tannhirðu, þar sem þeir eru viðkvæmir fyrir tannsteinsmyndun eins og aðrir smáhundar og því er mælt með að bursta tennur þeirra nokkrum sinnum í viku.
Klóaklipping er nauðsynleg, þar sem klær þeirra vaxa hratt og geta valdið óþægindum ef þær eru ekki styttar reglulega. Eyrun þarf einnig að hreinsa reglulega til að koma í veg fyrir sýkingar, sérstaklega þar sem feldur getur falið raka og óhreinindi.
Þó Shih Tzu séu ekki mjög orkumiklir hundar, njóta þeir góðs af daglegum stuttum göngutúrum og leik sem styrkir líkama og huga. Rétt fæði, reglulegar heilsufarsskoðanir og náin tengsl við eigendur skipta miklu máli þegar kemur að þeirra vellíðan og heilbrigði tegundarinnar (Regelmann, 1996).